Alþjóðlega tónlistarakademían í Hörpu er alþjóðlegt námskeið og tónlistarhátið fyrir tónlistarnema á framhaldsstigi og nú einnig áhugamenn. Einstök staðsetning Íslands í Norðuratlantshafi og framúrskarandi tónlistarhús skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir tónlistarnámskeið og hátíð á heimsmælikvarða. Námskeiðið fer fram í Hörpu í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Listaháskólann og Tónlistarskólann í Reykjavík.


Markmið Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu eru:

 

- að hlúa að menntun ungra og hæfileikaríkra tónlistarnema á Íslandi

- að stuðla að uppbyggingu nýrrar kynslóðar strengjaleikara á Íslandi og í nágrannalöndunum

- að varpa ljósi á hæfileikaríka nemendur

- að gefa nemendum tækifæri til frekari þjálfunar í einleik og samleik

- að gefa nemendum tækifæri til að koma fram í Hörpu

- að gefa nemendum tækifæri til að æfa sviðsframkomu og miðla tónlist til áheyrenda

- að stuðla að og þróa samskipti milli áheyrenda og ungra einleikara

-  að stuðla að og vera vettvangur fyrir norrænt og alþjóðlegt samstarf

- að auka skilning ungmenna á menningarlegri fjölbreytni 


Sérstaða Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu felst í aðstöðunni, alþjóðlegu samstarfi og samfélagslegum áherslum:

1) Harpa hefur hlotið alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar. Þátttakendum gefst einstakt tækifæri til að upplifa framúrskarandi aðstæður til tónlistariðkunar í fögru umhverfi. Aðdráttarafl Hörpunnar fyrir alþjóðasamfélagið er ómetanlegt. Með tónlistarhúsi á heimsmælikvarða opnast betri möguleikar til að bjóða alþjóðlegum ungum einleikurum að koma fram á Íslandi, miðla af reynslu sinni og vera ungum, íslenskum tónlistarnemum hvatning til dáða.

2) Í samstarfi við Lin Yao Ji Music Foundation of China hefur Akademían tök á að bjóða til sín alþjóðlegum verðlaunahöfum tónlistarkeppna og viðurkenndum kennurum á heimsmælikvarða. Hin þekkta alþjóðlega fiðlukeppni, Menuhin keppnin, er þegar orðin fastur samstarfsaðili um að senda einleikara.

3) Auk þess að stuðla að framförum í hljóðfæraleik leggur Alþjóðlega tónlistarakademían áherslu á að stuðla að auknum tónlistaráhuga og breiðum skilningi á tónlist í samfélaginu. Rík áhersla er lögð á nemendur þjálfist í sviðsframkomu og læri að miðla tónlist á áhrifaríkan hátt. Með því að veita áhugamönnum tækifæri til að bæta við sig við hlið ungra tónlistarnema og gefa þeim vettvang til að koma fram, eru stoðir tónlistarlífsins styrktar.

 

 

Partners / Sponsors

mom merki-a-vef-skjoldur-vinstr ylir

menuhin Custom    lin-yao